Af mæðrum

Tilfinningalegur vöxtur á meðgöngu

Tilfinningalegur stuðningur við mæður á meðgöngu, í fæðingu og seinna í lífinu, er ákaflega mikilvægur þáttur til mótunar á sjálfsmynd barnsins. Heili barnsins á meðgöngu vex ört og er sífellt að skapa nýjar taugafræðilegar tengingar. Í gegnum upplifanir móður sinnar og umhverfisins, lærir barnið hvernig bregðast skuli við lífinu og hinum ýmsu verkefnum, stórum og smáum, sem skjóta uppi kollinum dags daglega. Um nokkurt skeið hefur vitneskjan um þær neikvæðu afleiðingar sem langvarandi streita og kvíði móður, hefur á líf barnsins, verið nokkuð almenn. Börn þessara mæðra eru líklegri en önnur til að lifa í mikilli streitu sjálf, auk þess sem að margt bendir til að líkur á ADHD aukast. Oft upplifi ég mæður óttast þetta ákaflega mikið og auka þannig en á samviskubit sitt. Þær fá oft lítinn stuðning til að takast á við tilfinningalega erfiðleika á meðgöngu og ákveðinn vítahringur skapast og þær vita ekki hvernig skuli rjúfa hann

Jákvæð mótun
Í umræðum um þessi mál meðal fólks sem starfar á heilbrigðissviði, svo og mæðra og samfélagsins í heild sinni, gleymist oft að draga fram í dagsljósið alla hina jákvæðu mótun sem getur átt sér stað og á sér stað, í móðurkviði, í fæðingu og á nýburatímabilinu. Alveg eins og móðir sem upplifir sig eina og óstudda á þessum tíma, kennir barni sínu að það sé að fæðast inn í heim þar sem lítinn stuðning sé að sækja, hlýtur móðir sem upplifir sig tengda, að kenna því ákveðið öryggi sem felst í því að fá stuðning.
Meðgangan er einnig einstakt og afar mótandi ferli í lífi móðurinnar. Ákveðin breyting á boðefnaflæði og annarri heilastarfssemi á sér stað og eiga konur auðveldara með að tileinka sér ákveðna nýja hluti á þessum tíma. Margar konur sem áður hafa upplifað meðgöngu, kannast við að upplifa aukna færni á sumum sviðum, meðan þær eiga stundum erfitt með að framkvma hluti sem voru þeim sjálfsagðir fyrir meðgönguna. Á þessum tíma ættum við því að tileinka okkur nýja hluti, víkka sjóndeildarhring okkar og daglega gera hluti sem veita okkur ánægju, sækja stuðning og innblástur úr umhverfi okkar, leyfa okkur að blómstra!

Félagslegi þátturinn
Mikilvægt er að konur sækist eftir uppbyggjandi félagsskap á meðgöngu. Núna er ekki rétti tíminn til að sækja í áfallasögur af meðgöngu og fæðingu. Núna á að sækja í félagsskap fólks sem koma þeim til að hlægja, er óhrætt við að sýna þeim væntumþykju og létta undir með þeim á hvern þann hátt sem því er fært.
Gott er að sækja í fólk sem hefur jákvæða sýn á meðgönguna og fæðinguna, sem styrkir konuna og styður hana í trú hennar á meðgöngu og fæðingu sem tækifæri til andlegs vaxtar hjá henni og hinu ófædda barni. Auk þess að auka á vellíðun kvenna og andlegan vöxt, mun þetta auka almenna vellíðan og öryggisskennd barnsins. Það skapar sér jákvæðar hugmyndir um samfélagið sem það fæðist inn í, byggt á reynslu móður sinnar. Eins er líklegt að þetta auki líkur hennar á ánægjulegri fæðingarupplifun, sem mun enn frekar styrkja jákvæða sjálfsmynd barnsins. Fjölskylda og samfélag gegna lykilhlutverki í að skapa góð skilyrði fyrir vexti nýrrar manneskju, frá getnaði og fram í tímann. Sterk tengslamyndun við foreldri og aðra í nánasta umhverfi barnsins, margfalldar hina tilfinningalegu og huglægu færni barnsins, og gefur góðan grunn að alhliða heilsu þess um ókomna tíð.

 
Máttur orðsins
Málþroski barnsins byrjar að þróast snemma í móðurkviði. Það er því afar mikilvægt fyrir mæður og feður að vera dugleg að tala við og syngja fyrir hið ófædda barn. Það þarf ekkert skipulagt prógramm eða æfingar frá sérfræðingum. Konur hafa alltaf vitað þetta, en fóru svo að efast, þegar þeim var sagt af sérfræðingum að þetta væri tilgangslaust, að börnin þeirra skildu ekki eða jafnvel að þau væru heyrnarlaus.
En hvað á svo að segja við hið ófædda barn? Þið getið rætt allt milli himins og jarðar við þau. Segið þeim frá því sem þið eruð að gera að hverju sinni; frá göngunni sem þú ert í, veislunni sem þú ert að fara í, hversu þig hlakkar til að sjá fallega andlit þess, finna lyktina og halda því í örmum þínum.
Segðu barninu frá því hversvegna þú ert hrædd eða óörugg á þeim tíma, segðu því hversvegna þér líður svona vel. Þegar þú átt snörp orðaskipti við maka þinn, eða þið eruð jafnvel í harkalegu rifrildi, haltu hendi á maga þínum og segðu barninu að það sé öruggt, þið séuð ekki að rífast vegna barnsins.
Syngið vögguvísurnar sem þið kunnið, syngjið fyrir það önnur falleg lög, eða raulið litla lagstúfa. Svo, þegar barnið fæðist, opnar augun í fyrsta sinn í þessum stóra og bjarta heimi, þyngdarlögmálið gerir fyrir alvöru vart við sig, kallt loft lendir á ofurviðkvæmri hún þess í fyrsta sinn, blóðflæði breytist og lungu barnsins fyllast lofti; talaðu blíðlega við barnið þitt, bjóddu það velkomið, syngdu litla lagstúfinn ykkar fyrir það. Þú munt strax taka eftir ákveðinni öryggiskennd hjá barninu. Margar ljósmæður kannast við að börn sem eru sein til að anda eftir fæðingu, opni augun og byrji að anda þegar þau heyra undurfagra rödd móður sinnar tala til þess eða syngja vögguvísuna sem hún hefur svo ótal oft sungið fyrir það áður.Þetta getur verið sérlega mikilvægt hafi fæðingin verið þér og/eða barni þínu erfið. Lendi þú eða barnið í erfiðleikum og þið verðið aðskilin við fæðingu, er gott að sá aðili sem fylgir barninu sé meðvitað um þetta sterka samband sem á milli ykkar hefur þróast. Viðkomandi aðili getur þá talað við barnið, vitandi að barnið er vant því að það sé álitið fullkomlega meðvitaður einstaklingur.

Að horfast í augu við sjálfa sig
Gott er að takast á við þær fjölmörgu tilfinningar sem gera vart við sig á meðgöngu. Undanfarna áratugi hefur verið vinsælt að kenna hormónum um hverja skapsveiflu kvenna á meðgöngu, í fæðingu, sængurlegu...tja, þegar ég hugsa mig betur um, þá er og hefur verið ákaflega vinsælt að kenna hormónakerfinu um nær allar sveiflur í tilfinningalífi kvenna. Allar konur geta lagt sitt af mörkum til að snúa þessari þróun og taka mark á sjálfri sér. Vissulega breytist hormónastarfssemin á meðgöngu, en eitt hlutverka hinnar breyttu hormónastarfssemi er skapa ákveðna innri opnun til að auðvelda konum að koma auga á þá hluti í fari sínu sem þarfnast aukinnar athygli og aðhlynningar. Ávinngarnir eru miklir fyrir konuna og ófædda barnið hennar. Hún kennir barninu að það sé öruggt að bera kennsl á og horfast í augu við ákveðnar tilfinningar, skapgerðarbresti, hugsanir og jafnvel gömul áföll eða særindi. Hún kennir barninu að það hafi val; að það þurfi ekki að stjórnast af eigin tilfinningum og annarra, heldur að það sé ábyrgt fyrir þeim og geti valið hvernig það bregst við þeim. Áður óafgreiddar tilfinningar láta oft á sér kræla í fæðingu, og að mati margra geta þær skapað erfiðleika í fæðingunni og fyrstu vikur eða mánuði eftir fæðingu.

Samfélagslegur ávinningur
Möguleikar kvenna á að gera meðgönguna og fæðinguna að jákvæðri upplifun fyrir sig og barnið sitt, eru endalausir. Allir ættu að geta fundið eitthvað sitt hæfi. Galdurinn er oft fólginn í því að skoða umhverfi sitt og innri mann með opnum hug. Einnig er mikilvægt að nánasta umhverfi konunnar styðji hana og hvetji í hverju því sem hún tekur sér fyrir hendur og hafi hugfast að þarf ekki aðeins foreldra, heldur líka samfélag til að ala upp barn, og að hið eiginlega uppeldi byrjar strax við getnað. Ljóst er að ávinningurinn af uppbyggjandi lífsstíl móður á meðgöngu er talsverður fyrir samfélagið allt, þó að það sé kannski aðeins litla fjölskyldan sem verður ávinninganna vör í byrjun. Það þarf aðeins eina meðgöngu í einu, eina fæðingu í einu, eina móður og barn í einu.



« Síðasta færsla | Næsta færsla »

Bæta við athugasemd

Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.

Um bloggið

Eydís Hentze Pétursdóttir

Höfundur

Eydís Hentze Pétursdóttir
Eydís Hentze Pétursdóttir

Ég starfa við fæðingahjálp þá er svipar til þeirrar er doulur og birthcoaches veita. Kannski er best að titla mig sem Fæðingacoach. Ég útskrifaðist úr námi Miu Jiaya, www.foedselscoach.dk sl. sumar. Mia Jiaya ásamt Binnie Dansby www.ecstaticbirth.com , Michel Odent og Jeannine Parvati Baker www.birthkeeper.com eru þeir aðilar sem ég hef hlotið einna mesta kennslu af.  Stærstu lærimeistarar mínir eru þó börnin mín, Marteinn, Regína og Katrín. Ég er einnig svo lánsöm að hafa hann Gumma minn mér við hlið í flestu sem ég geri. Hann er sambýlismaður minn, faðir barna minna, besti vinur minn og andlegur félagi. Við búum í Keflavík, nýlega flutt aftur eftir langa dvöl í Danmörku. Vinnan mín er mitt helsta áhugamál, en önnur eru jurtir, matseld, andleg iðkun og málefni og lestur.

www.draumafaeding.net 

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (24.11.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband