Grátlausu aðferðirnir

Er að lesa bókina The No Cry Discipline Solution eftir Elizabeth Pantley

Bókin er stórgóð alveg! Ég er enn stödd á fyrri hlutum, en mér líður eins og nýju foreldri nú þegar.  Undanfarna (marga) mánuði höfum við átt erfitt með að fóta okkur í foreldrahlutverkinu og höfum fest okkur vítahring skyndilausna sem við vitum og sjáum að skila engu, nema meiri ringulreið og reiði meðal okkar allra. Við höfum líka verið að eltast við að gera öðrum til hæfis í uppeldi barna okkar, með svona líka frábærum árangri; allir hundfúlir!

Þessi bók er því kærkomin upprifjun. Við vorum á svo góðu róli, áttum auðvelt með að sigta frá hvað skipti máli og hvað ekki, tala við börnin af virðingu, bregðast við erfiðum aðstæðum svo sem gráti, tuði, skapofsaköstum með smá húmor, faðmlagi, hléi, hvað sem til þurfti. Svona oftast :)

" Keep your priority clear. Life will be more peaceful when you can convince yourself that a green bean is only a green bean - not an attack on your values, your parenting skills, or your domestic talents." Þetta er klárlega setning ársins í mínum huga, en allar "grænu baunirnar" voru farnar að skipta öllu máli, meðan tjáning, friður og lífsgleði barnanna (og annarra fjölskyldumeðlima) skiptu mun minna máli. 


Af mæðrum

Tilfinningalegur vöxtur á meðgöngu

Tilfinningalegur stuðningur við mæður á meðgöngu, í fæðingu og seinna í lífinu, er ákaflega mikilvægur þáttur til mótunar á sjálfsmynd barnsins. Heili barnsins á meðgöngu vex ört og er sífellt að skapa nýjar taugafræðilegar tengingar. Í gegnum upplifanir móður sinnar og umhverfisins, lærir barnið hvernig bregðast skuli við lífinu og hinum ýmsu verkefnum, stórum og smáum, sem skjóta uppi kollinum dags daglega. Um nokkurt skeið hefur vitneskjan um þær neikvæðu afleiðingar sem langvarandi streita og kvíði móður, hefur á líf barnsins, verið nokkuð almenn. Börn þessara mæðra eru líklegri en önnur til að lifa í mikilli streitu sjálf, auk þess sem að margt bendir til að líkur á ADHD aukast. Oft upplifi ég mæður óttast þetta ákaflega mikið og auka þannig en á samviskubit sitt. Þær fá oft lítinn stuðning til að takast á við tilfinningalega erfiðleika á meðgöngu og ákveðinn vítahringur skapast og þær vita ekki hvernig skuli rjúfa hann

Jákvæð mótun
Í umræðum um þessi mál meðal fólks sem starfar á heilbrigðissviði, svo og mæðra og samfélagsins í heild sinni, gleymist oft að draga fram í dagsljósið alla hina jákvæðu mótun sem getur átt sér stað og á sér stað, í móðurkviði, í fæðingu og á nýburatímabilinu. Alveg eins og móðir sem upplifir sig eina og óstudda á þessum tíma, kennir barni sínu að það sé að fæðast inn í heim þar sem lítinn stuðning sé að sækja, hlýtur móðir sem upplifir sig tengda, að kenna því ákveðið öryggi sem felst í því að fá stuðning.
Meðgangan er einnig einstakt og afar mótandi ferli í lífi móðurinnar. Ákveðin breyting á boðefnaflæði og annarri heilastarfssemi á sér stað og eiga konur auðveldara með að tileinka sér ákveðna nýja hluti á þessum tíma. Margar konur sem áður hafa upplifað meðgöngu, kannast við að upplifa aukna færni á sumum sviðum, meðan þær eiga stundum erfitt með að framkvma hluti sem voru þeim sjálfsagðir fyrir meðgönguna. Á þessum tíma ættum við því að tileinka okkur nýja hluti, víkka sjóndeildarhring okkar og daglega gera hluti sem veita okkur ánægju, sækja stuðning og innblástur úr umhverfi okkar, leyfa okkur að blómstra!

Félagslegi þátturinn
Mikilvægt er að konur sækist eftir uppbyggjandi félagsskap á meðgöngu. Núna er ekki rétti tíminn til að sækja í áfallasögur af meðgöngu og fæðingu. Núna á að sækja í félagsskap fólks sem koma þeim til að hlægja, er óhrætt við að sýna þeim væntumþykju og létta undir með þeim á hvern þann hátt sem því er fært.
Gott er að sækja í fólk sem hefur jákvæða sýn á meðgönguna og fæðinguna, sem styrkir konuna og styður hana í trú hennar á meðgöngu og fæðingu sem tækifæri til andlegs vaxtar hjá henni og hinu ófædda barni. Auk þess að auka á vellíðun kvenna og andlegan vöxt, mun þetta auka almenna vellíðan og öryggisskennd barnsins. Það skapar sér jákvæðar hugmyndir um samfélagið sem það fæðist inn í, byggt á reynslu móður sinnar. Eins er líklegt að þetta auki líkur hennar á ánægjulegri fæðingarupplifun, sem mun enn frekar styrkja jákvæða sjálfsmynd barnsins. Fjölskylda og samfélag gegna lykilhlutverki í að skapa góð skilyrði fyrir vexti nýrrar manneskju, frá getnaði og fram í tímann. Sterk tengslamyndun við foreldri og aðra í nánasta umhverfi barnsins, margfalldar hina tilfinningalegu og huglægu færni barnsins, og gefur góðan grunn að alhliða heilsu þess um ókomna tíð.

 
Máttur orðsins
Málþroski barnsins byrjar að þróast snemma í móðurkviði. Það er því afar mikilvægt fyrir mæður og feður að vera dugleg að tala við og syngja fyrir hið ófædda barn. Það þarf ekkert skipulagt prógramm eða æfingar frá sérfræðingum. Konur hafa alltaf vitað þetta, en fóru svo að efast, þegar þeim var sagt af sérfræðingum að þetta væri tilgangslaust, að börnin þeirra skildu ekki eða jafnvel að þau væru heyrnarlaus.
En hvað á svo að segja við hið ófædda barn? Þið getið rætt allt milli himins og jarðar við þau. Segið þeim frá því sem þið eruð að gera að hverju sinni; frá göngunni sem þú ert í, veislunni sem þú ert að fara í, hversu þig hlakkar til að sjá fallega andlit þess, finna lyktina og halda því í örmum þínum.
Segðu barninu frá því hversvegna þú ert hrædd eða óörugg á þeim tíma, segðu því hversvegna þér líður svona vel. Þegar þú átt snörp orðaskipti við maka þinn, eða þið eruð jafnvel í harkalegu rifrildi, haltu hendi á maga þínum og segðu barninu að það sé öruggt, þið séuð ekki að rífast vegna barnsins.
Syngið vögguvísurnar sem þið kunnið, syngjið fyrir það önnur falleg lög, eða raulið litla lagstúfa. Svo, þegar barnið fæðist, opnar augun í fyrsta sinn í þessum stóra og bjarta heimi, þyngdarlögmálið gerir fyrir alvöru vart við sig, kallt loft lendir á ofurviðkvæmri hún þess í fyrsta sinn, blóðflæði breytist og lungu barnsins fyllast lofti; talaðu blíðlega við barnið þitt, bjóddu það velkomið, syngdu litla lagstúfinn ykkar fyrir það. Þú munt strax taka eftir ákveðinni öryggiskennd hjá barninu. Margar ljósmæður kannast við að börn sem eru sein til að anda eftir fæðingu, opni augun og byrji að anda þegar þau heyra undurfagra rödd móður sinnar tala til þess eða syngja vögguvísuna sem hún hefur svo ótal oft sungið fyrir það áður.Þetta getur verið sérlega mikilvægt hafi fæðingin verið þér og/eða barni þínu erfið. Lendi þú eða barnið í erfiðleikum og þið verðið aðskilin við fæðingu, er gott að sá aðili sem fylgir barninu sé meðvitað um þetta sterka samband sem á milli ykkar hefur þróast. Viðkomandi aðili getur þá talað við barnið, vitandi að barnið er vant því að það sé álitið fullkomlega meðvitaður einstaklingur.

Að horfast í augu við sjálfa sig
Gott er að takast á við þær fjölmörgu tilfinningar sem gera vart við sig á meðgöngu. Undanfarna áratugi hefur verið vinsælt að kenna hormónum um hverja skapsveiflu kvenna á meðgöngu, í fæðingu, sængurlegu...tja, þegar ég hugsa mig betur um, þá er og hefur verið ákaflega vinsælt að kenna hormónakerfinu um nær allar sveiflur í tilfinningalífi kvenna. Allar konur geta lagt sitt af mörkum til að snúa þessari þróun og taka mark á sjálfri sér. Vissulega breytist hormónastarfssemin á meðgöngu, en eitt hlutverka hinnar breyttu hormónastarfssemi er skapa ákveðna innri opnun til að auðvelda konum að koma auga á þá hluti í fari sínu sem þarfnast aukinnar athygli og aðhlynningar. Ávinngarnir eru miklir fyrir konuna og ófædda barnið hennar. Hún kennir barninu að það sé öruggt að bera kennsl á og horfast í augu við ákveðnar tilfinningar, skapgerðarbresti, hugsanir og jafnvel gömul áföll eða særindi. Hún kennir barninu að það hafi val; að það þurfi ekki að stjórnast af eigin tilfinningum og annarra, heldur að það sé ábyrgt fyrir þeim og geti valið hvernig það bregst við þeim. Áður óafgreiddar tilfinningar láta oft á sér kræla í fæðingu, og að mati margra geta þær skapað erfiðleika í fæðingunni og fyrstu vikur eða mánuði eftir fæðingu.

Samfélagslegur ávinningur
Möguleikar kvenna á að gera meðgönguna og fæðinguna að jákvæðri upplifun fyrir sig og barnið sitt, eru endalausir. Allir ættu að geta fundið eitthvað sitt hæfi. Galdurinn er oft fólginn í því að skoða umhverfi sitt og innri mann með opnum hug. Einnig er mikilvægt að nánasta umhverfi konunnar styðji hana og hvetji í hverju því sem hún tekur sér fyrir hendur og hafi hugfast að þarf ekki aðeins foreldra, heldur líka samfélag til að ala upp barn, og að hið eiginlega uppeldi byrjar strax við getnað. Ljóst er að ávinningurinn af uppbyggjandi lífsstíl móður á meðgöngu er talsverður fyrir samfélagið allt, þó að það sé kannski aðeins litla fjölskyldan sem verður ávinninganna vör í byrjun. Það þarf aðeins eina meðgöngu í einu, eina fæðingu í einu, eina móður og barn í einu.



Góðar viðtökur

Mig langar að þakka fyrir þær góðu viðtökur sem námskeiðið í Yggdrasil fékk. Vefverslun Draumafæðingar opnaði í síðustu viku og hefur hún einnig fengið ótrúlegar viðtökur, svo miklu betri en ég bjóst við. 

Langar að þakka öllum sem hafa stutt við bakið á mér í þessu ferli. 


Verslunin komin í gagnið

Loksins er hún orðin nothæf þessi elska! Enn einn draumurinn minn rætist með opnun þessarar verslunar

Hin náttúrulega fæðing

Draumafæðing og Yggdrasill kynna:

Laugardaginn 6.okt verður hleypt af stokkunum forvitnilegu námskeiði um hina náttúrulegu fæðingu. Við verðum til húsa í salnum hjá Yggdrasill, Skólavörðustíg 16, dagskráin hefst klukkan 14:00 og lýkur klukkan 18:00.

* Hringvöðvalögmálið og ástarkokteillinn
* Jurtir, remedíur og "húsráð" í lok meðgöngu, fæðingu og sængurlegu
* Hreyfing, stuðningur, öndun, snerting og fæðingarstellingar
* Myndin Birth as we know it verður sýnd ( http://www.birthasweknowit.com )
* Léttar veitingar verða í boði
* Þátttakendur fá efni frá námskeiðinu með heim

Opið öllum. Barnshafandi konum er velkomið að taka maka sinn eða annan aðstandanda með.

Verð fyrir einstakling: 4000
Verð fyrir par: 6000

Skráning á www.draumafaeding.net eða á eydis@draumafaeding.net

 

 

www.draumafaeding.net


Hvaða aðgerðir?

Ég hlakka til í að grúska frekar í þessu máli og sjá hvaða aðgerðir norsk heilbrigðisyfirvöld hafa farið útí og hvort það hafi haft "aukaverkanir" af öðru tagi, svo sem fjölsgun á meðgöngueitrunum, fyrirburafæðingum og svo framvegis.

 


mbl.is Þyngstu börn heims fæðast á Íslandi
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Hitti naglann á höfuðið

Hann Leifur, bloggvinur minn, setti inn dásamlega færslu í dag. Þetta er svo rétt. Ég gleymi svo oft hve mengandi áhrif mengaðar hugsanir mínar hafa. hugsun


Hreyfingar í móðurkviði sem tjáning

Samskiptahæfni barna okkar, strax í móðurkviði, er gríðarleg. Oft er erfitt að gera sér nákvæma grein fyrir hve yfirgripsmikil hún er. Sannfæring margra er sú að allar mæður búi yfir þessari vitneskju og taki þátt í þessum samskiptum, án þess að gera sér endilega grein fyrir því. Með nýstárlegri tækni á borð við ómskoðunartækni (sónar) hefur okkur gefist einstakt tækifæri til að skyggnast betur í þennan dularfulla heim sem barnið okkar lifir í fyrir fæðingu.

Huglægar myndir
Á einhverjum tímapunkti meðgöngunnar fara flest allar, ef ekki allar mæður, að finna fyrir ákveðinni reglu á hreyfingum barnsins. Yfirleitt þegar móðirin leggst í rúmið á kvöldin, eða sest í sófann og slakar á í lok dags, finnur hún fyrir auknum hreyfingum. Fjörugar hreyfingarnar eru vel til þess fallnar að ná athygli móðurinnar. Undantekningarlaust bregst móðirin við og leggur hendi á magann. Stundum er pabba eða öðrum ástvini boðið að vera með. Þá talar móðirin/faðirinn oft við barnið á þessum stundum, eða syngja fyrir það. Oftar en ekki er brosað, hlegið og flissað. Móðir/faðir nota þessa stund til að skapa sér mynd af barninu. Hvernig lítur það út? Hvort ætli barnið muni mest líkjast mömmu sinni eða pabba? Verður það kannski alveg eins og stóri bróðir? Er þetta kannski lítil stelpa? Lítill strákur? Í samtölum mínum við mæður hef ég tekið eftir að allar þeirra hafa myndað sér einhverskonar hugmynd um persónuleika barnsins útfrá hreyfingum þess. Allar hafa haft rétt fyrir sér að einhverju leyti eða öllu.


Barnið lætur vita

Flestar mæður velta líka fyrir sér, hvort sem þær gera sér grein fyrir því eða ekki, hvað spörkin þýða. Stundum eiga þær erfitt með að átta sig á því hvort kröftuga sparkið sem þær finna núna, sé mótmæli við einhverjum óþægindum eða vegna þess að barnið vill fanga athygli móður sinnar af öðrum ástæðum. Kannski er litla ófædda barnið að segja ástkærri móður sinni hve vel hún hugsar um það, hve vel hún næri það og hve kröftugt það sé orðið vegna þessa.
Einhvernvegin virðast mæður samt oft þekkja muninn á t.d. kröftugum spörkum barnsins síns. Barnið getur til dæmis sýnt afar sterk viðbrögð við ákveðinni tónlist og móðirin veit með innsæi sínu að barninu líkar ekki tónlistin. Barnið getur sýnt, að því er virðist, sömu viðbrögð við annarri tónlist, en móðirin veit samt að barninu líkar þessi tónlist. Það er gaman að velta fyrir hvað á sér stað í þessum samskiptum. Er það tónlistarsmekkur móður sem hefur áhrif? Hugarástand hennar á þeim tíma? Eða greinir hún önnur blæbrigði í hreyfingum barnsins, sem fyrir hana, virðist í fyrstu vera eins?
Þunnt er móðureyrað.

Tilraunastarfsemin
Foreldrar ættu að vera óhræddir við að gera tilraunir með samskiptahæfileika barnanna í móðurkviði. Finnið saman góðan tíma, t.d. þann tíma sem barnið er sem virkast. Þrýstið nokkrum fingrum annarrar handar þétt á nafla móður, eða jafnvel annan stað, en hafið alltaf sama stað. Ýtið inn og sleppið eftir nokkrar sekúndur, eins er hægt að ýta stutt nokkrum sinnum í röð. Bíðið svo eftir viðbrögðum barnsins. Kannski bregst barnið ekki við fyrstu skiptin, en prófið að halda áfram nokkra daga í röð. Margar mæður hafa reynslu af að brátt fer barnið að leitast við að sparka í höndina, nudda sér í hana eða þrýsta einhverjum líkamshluta að hendinni. Sumar mæður hafa líka reynslu af að með tíð og tíma, þegar þær setjast niður til að slaka á, að barnið byrji að leita á þennan ákveðna stað af fyrra bragði. Þetta gerist líka þegar móðirin hefur verið mikið upptekin um tíma og barnið kallar á athygli móður sinnar.
Eins er hægt að gera sömu tilraunir, en með hljóð í stað þess að þrýsta á magann. Þá getur t.d. faðirinn talað við barnið.


Uppskera foreldra sem eru meðvitaðir um samskiptin milli sín og barnsins, er ríkuleg. Helst bera að nefna aukna næmni fyrir látbragði og annarri tjáningu barnsins, þar af leiðandi þörfum þess. Börnin eru óhræddari við að tjá sig á skilvirkan hátt og er auðvelt að freistast til að draga þá ályktun að í kjölfarið aukist öryggiskennd barns og foreldra.









 








Janúarbarn

Það er mikið frost úti þennan fagra janúarmorgunn. Ég vanda mig við að flýta mér hægt. Teresa hringdi fyrr um morguninn og sagðist vera komin með hríðir, en þetta er hennar fyrsta fæðing. Á leiðinni til hennar tæmi ég hugann, byrja hægt og rólega að anda; eins djúp innöndun og hægt er, sleppi strax loftinu út, án hléa. Ég get ekki sleppt því að brosa, ég hlakka svo til!


Þegar ég kem inn heyri ég undirfögur hljóð fæðandi konu koma úr svefnherberginu. Ég gægist inn og sé að Karen, fæðingacoach, er komin. Karen hafði komið á undan mér og fundið Teresu undir sæng, alla í kipri vegna sársauka og hugarangurs. Staðan var heldur betur önnur núna. Þarna standa þær tvær saman og halda utanum hvora aðra, anda saman og saman segja þær "TAKK". Takk er eitt mesta töfraorð sem fyrirfinnst í fæðingu. Þegar konan segir Takk eða Já, þá þakkar hún fyrir hríðina, fyrir allt sem er og til hennar kemur. Þá nær hún betur að vera tilstaðar og vinna með fæðingunni. Teresa er óhrædd við að nota röddina, sem er frábært, þá nær hún svo vel að losa sig við alla spennuna.

Hinrik, kærasti hennar, er í eldhúsinu. Það er ánægjulegt að fá að sjá hann. Hann ætlaði sér ekki að vera með í fæðingunni, hann var of hræddur. Hann kom heldur ekki með í fæðingarundirbúninginn, hann var einmitt of hræddur. Þetta er hans þriðja barn.
Hann sker niður engifer eins og hann sé á launum við það. Engifer er til að setja í heita bakstra. Hann hefur ákveðið að vera þarna í smástund og hjálpa til við svona praktíska hluti. Ég segi honum hve vel konan hans er að standa sig, að allt sé fullkomið, hún vinni vel með hríðunum og er undurfögur. Hann  hættir að skera í smástund og horfir vantrúaður á mig. Ég útskýri allt fyrir honum, meðan hann rembist við að trúa mér. Heldur svo áfram að skera engifer. Ég sé að Karen og Teresa ná mjög vel saman, en Hinrik vantar einhvern, hugsa með mér að ég verði þá honum til halds og trausts.

Ég fer inn í svefnherbergi og læt vita af mér. Hinrik fer að koma inn með heita bakstra og Teresa gleðst augljóslega yfir þeim. Hún gleðst örugglega líka yfir veru Hinriks þarna og að hann skuli taka virkan þátt. Hinrik gætir líka að fæðingarlauginni, ekki það að það sé þörf á því, en hann veit ekki alveg hvað hann á af sér að gera. Ég elti hann svo í eldhúsið aftur, hjálpa honum með allt batteríið sem hann reynir að halda gangandi þar. Við náum að tala mikið saman. Við tölum um hann, um Teresu, um fæðingar, allt sem okkur dettur í hug. Hann róast allur smám saman. Teresa segist vilja fara í vatnið. Ég sé að hún er nógu langt komin í ferlinu til að gera farið ofaní. Ég sé að hún er komin á þennan sérstaka stað, augun orðið fjarræn, en samt algerlega tilstaðar í núinu. Hríðarnar eru langar. Tel samt best að hringja í ljósmóðurina hennar, sem er á leiðinni, og spyrja hana. Hún er sammála mér og segir að hún verði komin innan skamms. Hinrik er eins og fagmaður í heitu bökstrunum, hefur algera stjórn á þeim. Tilraunir mínar til að taka við þeim, svo hann geti sinnt konunni sinni, verða ekki til neins, hann neitar staðfastlega að láta þetta verk frá sér. En það er gott að hann skuli hafa hlutverk til að sinna, annars yrði hann enn stressaðri og það gæti skemmt svo mikið útfrá sér. Ég geri mitt besta til að mæta leitandi augnráði hans og veita honum þannig vissu um að hann sé að gera vel og rétt. Hann róast sífellt meira.


Ljósmóðirin læðist hljóðlega inn, svona eins og góðri ljósmóður sæmir. Við vitum varla af henni. Eftir að hafa náð sambandi við Teresu, athugar hún útvíkkun. Hún er að detta í 9 sentímetrana. Teresa segist þurfa aðeins meiri tíma ein með Karen, mér og Hinrik áður en ljósmóðirin getur komið inn og verið hjá þeim. Ljósunni, Karlottu, finnst það ekki mikið mál og sest inn í stofu og gerir allt tilbúið fyrir sig.
Teresa gerist ákveðin við Hinrik og segir honum að nú þarfnist hún hans, nú verði hann að halda utanum hana. Hinrik sest á lágan stól við laugin og beygir sig til Teresu, vefur handleggjum sínum utanum hana, meðan hún snýr baki í hann og hallar sér upp að honum og fæðingarlaugarkantinum. Hún hvílir höfuð sitt á brjóstkassa hans. Við Karen skynjum að þau þurfi að vera ein. Við förum fram og setjumst hjá Karlottu og förum saman yfir ýmis mál. Karlotta spyr okkur út í sérstakar óskir Teresu og saman komumst við að niðurstöðu um hvernig best sé að hátta hlutunum. Eftir dágóða stund gægjumst við inn til Teresu. Hún biður okkur um að vera hjá sér núna. Við Karen erum sitthvoru megin við hana. Hún leitar að augnráði okkar tveggja til skiptis.

Karlotta, ljósan, situr álengdar og fylgist með. Andrúmsloftið er engu líkt. Hver sem kæmi inn gæti fundið traustið og kraftinn sem þarna ríkti. Teresa snýr sér að mér, stóru bláu augun hennar eru opnari og stærri en nokkru sinni fyrr; Ég held að höfuð barnsins sé of stórt fyrir mig!
Ég brosi til hennar og fullvissa hana um að höfuð barnsins hennar sé alveg fullkomið fyrir líkama hennar, hún verði bara að fylgja líkama sínum og innsæi. Hún andar. Hún andar djúpt og af miklu öryggi. Mér finnst eins og...nei, er það? Ætli hún sé að fara að rembast? Sterk hríð kemur yfir hana og hún talar aftur til okkar um höfuð barnsins. Við fullvissum hana um hve vel hún standi sig, að það sé nóg pláss. Og önnur hríð kemur og enn andar Teresa af miklu öryggi. Svo opnar hún munninn og stóru, fallegu, bláu augun hennar breytast í einni svipan. Eitthvað algerlega nýtt birtist í þeim og brosið færist frá augunum og nær nú líka til munnsins. Ég sé núna hvernig hendur hennar halda við lítið barn ofan í vatninu. Hinrik áttar sig nú líka á því sem gerst hefur og skýst upp úr sætinu og kallar hátt á hjálp. Á augabragði stend ég hjá honum, næ augnsambandi við hann og með handabendingum hvet ég hann til að setjast aftur. Í því lyftir Teresa fögru barni uppúr vatninu. Litla barnið er hraustlegt að sjá, og mjög fljótlega heyrast lítil falleg hljóð og stuttu seinna opnar barnið augun og lítur beint á mömmu sína. Hinrik og Teresa muldra saman orð sem enginn skilur, nema þau. Þau eru eins og drukkin af gleði. Við drögum okkur í hlé og leyfum þeim að eiga þessa stund ein saman. Nokkru seinna vill Teresa komast uppúr fæðingarlauginni og við aðstoðum hana við það. Ekki fyrr en þá afhjúpa þau kynið á barninu. Lítil stelpa. Með spékoppana hennar mömmu sinnar.

Þau liggja öll saman undir sæng og við förum öll fram í stofu og fögnum þar. Um klukkustund síðar fer Karlotta að óróast um fylgjuna. Hún er ekki alveg laus og losnar ekki svo glatt. Við Karen styðjum við Teresu meðan hún fer uppá hækjur sér og nokkrum mínútum síðar, í þessari stellingu, fæðist flott og heil fylgja. Spöngin er heil. Þau liggja enn undir sæng og láta fara vel um sig í rúminu sem litla stelpan var getin í. Á meðan tökum við til og útbúum mat. Eftir því sem líður á daginn förum við Karen og Karlotta að tínast heim til okkar.
Brosið mitt er ennþá fast á mér, ekkert og enginn fær afmáð það.


 

Draumafæðing

Næsta námskeið Draumafæðingar í fæðingarundirbúningi, hefst þann 26. september nk.

Draumafæðing býður uppá ítarlegan og persónulegan undirbúning fyrir fæðingu barnsins þíns.
Þetta eru námskeið fyrir allar þær konur og menn sem vilja fá öðruvísi og dýpri nálgun á meðgöngu, fæðinguna og foreldrahlutverkið. Hér getur þú dekrað við þig, litið inná við, fengið mikla fræðslu og leiðsögn. Ég kenni konum ekki að fæða samkvæmt einhverju prógrammi eða tækni, heldur treysti ég því að konan viti nú þegar hvernig hún á að fæða og að barnið sé meðvitaður þátttakandi í ferlinu. Leitast er við að konan komist í kynni við þessar hliðar í sjálfri sér svo að hún sé fær um að taka upplýstar og meðvitaðar ákvarðanir um þetta einstaka ferli sem mun móta hana sem móður og konu alla tíð, svo og heilsu barnsins.

Í framhaldi af námskeiðinu eiga konur kost á því að fá fylgd frá fæðingacoach í fæðinguna.
Fæðingacoach / Doulur vera æ vinsælli kostir í nágrannalöndum okkar til að tryggja fjölskyldunni samfellda þjónustu og flglegan stuðning fyrir, í og eftirr fæðingu.
Rannsóknir sýna að viðvera faglegs stuðningsaðila, sem móðirin þekkir og treystir, dragi mikið úr inngripum og auki almennt ánægju með fæðingarferlið.

Nánari upplýsingar og skráning fást í gegnum heimasíðuna www.draumafaeding.net , í síma 421-5686 / 695-5685 eða í gegnum email, eydis@draumafaeding.net

Með bestu kveðjum,
Eydís Hentze
Fæðingacoach
www.draumafaeding.net

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Eydís Hentze Pétursdóttir

Höfundur

Eydís Hentze Pétursdóttir
Eydís Hentze Pétursdóttir

Ég starfa við fæðingahjálp þá er svipar til þeirrar er doulur og birthcoaches veita. Kannski er best að titla mig sem Fæðingacoach. Ég útskrifaðist úr námi Miu Jiaya, www.foedselscoach.dk sl. sumar. Mia Jiaya ásamt Binnie Dansby www.ecstaticbirth.com , Michel Odent og Jeannine Parvati Baker www.birthkeeper.com eru þeir aðilar sem ég hef hlotið einna mesta kennslu af.  Stærstu lærimeistarar mínir eru þó börnin mín, Marteinn, Regína og Katrín. Ég er einnig svo lánsöm að hafa hann Gumma minn mér við hlið í flestu sem ég geri. Hann er sambýlismaður minn, faðir barna minna, besti vinur minn og andlegur félagi. Við búum í Keflavík, nýlega flutt aftur eftir langa dvöl í Danmörku. Vinnan mín er mitt helsta áhugamál, en önnur eru jurtir, matseld, andleg iðkun og málefni og lestur.

www.draumafaeding.net 

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (7.5.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 15
  • Frá upphafi: 19637

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 15
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband