17.9.2007 | 16:38
Janúarbarn
Það er mikið frost úti þennan fagra janúarmorgunn. Ég vanda mig við að flýta mér hægt. Teresa hringdi fyrr um morguninn og sagðist vera komin með hríðir, en þetta er hennar fyrsta fæðing. Á leiðinni til hennar tæmi ég hugann, byrja hægt og rólega að anda; eins djúp innöndun og hægt er, sleppi strax loftinu út, án hléa. Ég get ekki sleppt því að brosa, ég hlakka svo til!
Þegar ég kem inn heyri ég undirfögur hljóð fæðandi konu koma úr svefnherberginu. Ég gægist inn og sé að Karen, fæðingacoach, er komin. Karen hafði komið á undan mér og fundið Teresu undir sæng, alla í kipri vegna sársauka og hugarangurs. Staðan var heldur betur önnur núna. Þarna standa þær tvær saman og halda utanum hvora aðra, anda saman og saman segja þær "TAKK". Takk er eitt mesta töfraorð sem fyrirfinnst í fæðingu. Þegar konan segir Takk eða Já, þá þakkar hún fyrir hríðina, fyrir allt sem er og til hennar kemur. Þá nær hún betur að vera tilstaðar og vinna með fæðingunni. Teresa er óhrædd við að nota röddina, sem er frábært, þá nær hún svo vel að losa sig við alla spennuna.
Hinrik, kærasti hennar, er í eldhúsinu. Það er ánægjulegt að fá að sjá hann. Hann ætlaði sér ekki að vera með í fæðingunni, hann var of hræddur. Hann kom heldur ekki með í fæðingarundirbúninginn, hann var einmitt of hræddur. Þetta er hans þriðja barn.
Hann sker niður engifer eins og hann sé á launum við það. Engifer er til að setja í heita bakstra. Hann hefur ákveðið að vera þarna í smástund og hjálpa til við svona praktíska hluti. Ég segi honum hve vel konan hans er að standa sig, að allt sé fullkomið, hún vinni vel með hríðunum og er undurfögur. Hann hættir að skera í smástund og horfir vantrúaður á mig. Ég útskýri allt fyrir honum, meðan hann rembist við að trúa mér. Heldur svo áfram að skera engifer. Ég sé að Karen og Teresa ná mjög vel saman, en Hinrik vantar einhvern, hugsa með mér að ég verði þá honum til halds og trausts.
Ég fer inn í svefnherbergi og læt vita af mér. Hinrik fer að koma inn með heita bakstra og Teresa gleðst augljóslega yfir þeim. Hún gleðst örugglega líka yfir veru Hinriks þarna og að hann skuli taka virkan þátt. Hinrik gætir líka að fæðingarlauginni, ekki það að það sé þörf á því, en hann veit ekki alveg hvað hann á af sér að gera. Ég elti hann svo í eldhúsið aftur, hjálpa honum með allt batteríið sem hann reynir að halda gangandi þar. Við náum að tala mikið saman. Við tölum um hann, um Teresu, um fæðingar, allt sem okkur dettur í hug. Hann róast allur smám saman. Teresa segist vilja fara í vatnið. Ég sé að hún er nógu langt komin í ferlinu til að gera farið ofaní. Ég sé að hún er komin á þennan sérstaka stað, augun orðið fjarræn, en samt algerlega tilstaðar í núinu. Hríðarnar eru langar. Tel samt best að hringja í ljósmóðurina hennar, sem er á leiðinni, og spyrja hana. Hún er sammála mér og segir að hún verði komin innan skamms. Hinrik er eins og fagmaður í heitu bökstrunum, hefur algera stjórn á þeim. Tilraunir mínar til að taka við þeim, svo hann geti sinnt konunni sinni, verða ekki til neins, hann neitar staðfastlega að láta þetta verk frá sér. En það er gott að hann skuli hafa hlutverk til að sinna, annars yrði hann enn stressaðri og það gæti skemmt svo mikið útfrá sér. Ég geri mitt besta til að mæta leitandi augnráði hans og veita honum þannig vissu um að hann sé að gera vel og rétt. Hann róast sífellt meira.
Ljósmóðirin læðist hljóðlega inn, svona eins og góðri ljósmóður sæmir. Við vitum varla af henni. Eftir að hafa náð sambandi við Teresu, athugar hún útvíkkun. Hún er að detta í 9 sentímetrana. Teresa segist þurfa aðeins meiri tíma ein með Karen, mér og Hinrik áður en ljósmóðirin getur komið inn og verið hjá þeim. Ljósunni, Karlottu, finnst það ekki mikið mál og sest inn í stofu og gerir allt tilbúið fyrir sig.
Teresa gerist ákveðin við Hinrik og segir honum að nú þarfnist hún hans, nú verði hann að halda utanum hana. Hinrik sest á lágan stól við laugin og beygir sig til Teresu, vefur handleggjum sínum utanum hana, meðan hún snýr baki í hann og hallar sér upp að honum og fæðingarlaugarkantinum. Hún hvílir höfuð sitt á brjóstkassa hans. Við Karen skynjum að þau þurfi að vera ein. Við förum fram og setjumst hjá Karlottu og förum saman yfir ýmis mál. Karlotta spyr okkur út í sérstakar óskir Teresu og saman komumst við að niðurstöðu um hvernig best sé að hátta hlutunum. Eftir dágóða stund gægjumst við inn til Teresu. Hún biður okkur um að vera hjá sér núna. Við Karen erum sitthvoru megin við hana. Hún leitar að augnráði okkar tveggja til skiptis.
Karlotta, ljósan, situr álengdar og fylgist með. Andrúmsloftið er engu líkt. Hver sem kæmi inn gæti fundið traustið og kraftinn sem þarna ríkti. Teresa snýr sér að mér, stóru bláu augun hennar eru opnari og stærri en nokkru sinni fyrr; Ég held að höfuð barnsins sé of stórt fyrir mig!
Ég brosi til hennar og fullvissa hana um að höfuð barnsins hennar sé alveg fullkomið fyrir líkama hennar, hún verði bara að fylgja líkama sínum og innsæi. Hún andar. Hún andar djúpt og af miklu öryggi. Mér finnst eins og...nei, er það? Ætli hún sé að fara að rembast? Sterk hríð kemur yfir hana og hún talar aftur til okkar um höfuð barnsins. Við fullvissum hana um hve vel hún standi sig, að það sé nóg pláss. Og önnur hríð kemur og enn andar Teresa af miklu öryggi. Svo opnar hún munninn og stóru, fallegu, bláu augun hennar breytast í einni svipan. Eitthvað algerlega nýtt birtist í þeim og brosið færist frá augunum og nær nú líka til munnsins. Ég sé núna hvernig hendur hennar halda við lítið barn ofan í vatninu. Hinrik áttar sig nú líka á því sem gerst hefur og skýst upp úr sætinu og kallar hátt á hjálp. Á augabragði stend ég hjá honum, næ augnsambandi við hann og með handabendingum hvet ég hann til að setjast aftur. Í því lyftir Teresa fögru barni uppúr vatninu. Litla barnið er hraustlegt að sjá, og mjög fljótlega heyrast lítil falleg hljóð og stuttu seinna opnar barnið augun og lítur beint á mömmu sína. Hinrik og Teresa muldra saman orð sem enginn skilur, nema þau. Þau eru eins og drukkin af gleði. Við drögum okkur í hlé og leyfum þeim að eiga þessa stund ein saman. Nokkru seinna vill Teresa komast uppúr fæðingarlauginni og við aðstoðum hana við það. Ekki fyrr en þá afhjúpa þau kynið á barninu. Lítil stelpa. Með spékoppana hennar mömmu sinnar.
Þau liggja öll saman undir sæng og við förum öll fram í stofu og fögnum þar. Um klukkustund síðar fer Karlotta að óróast um fylgjuna. Hún er ekki alveg laus og losnar ekki svo glatt. Við Karen styðjum við Teresu meðan hún fer uppá hækjur sér og nokkrum mínútum síðar, í þessari stellingu, fæðist flott og heil fylgja. Spöngin er heil. Þau liggja enn undir sæng og láta fara vel um sig í rúminu sem litla stelpan var getin í. Á meðan tökum við til og útbúum mat. Eftir því sem líður á daginn förum við Karen og Karlotta að tínast heim til okkar.
Brosið mitt er ennþá fast á mér, ekkert og enginn fær afmáð það.
Um bloggið
Eydís Hentze Pétursdóttir
Tenglar
Aðrir bloggarar
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 4
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 4
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Mikið er þetta falleg fæðingarsaga! Fékk bara gæsahúð og tár í augun.... ótrúlega myndrænt og mér fannst ég vera komin inn í herbergið til ykkar allra! Endilega settu fleiri svona yndislegar sögur hérna inn, það er svo gaman að lesa bloggið þitt!
ókunnug (IP-tala skráð) 18.9.2007 kl. 20:21
Gott þetta skyldi gleðja þig. Ég á svo margar fallegar minningar úr starfi mínu, þó starfsferilinn sé stuttur. Ég mun gera mitt besta til að skrifa fleiri frásagnir.
Eydís Hentze Pétursdóttir, 23.9.2007 kl. 13:53
Jeminn, rosalega ertu góður penni kona. Ótrúleg frásögn, ég segi eins og kona hérna fyrir ofan, ég fékk gæsahúð og tár í augun.
J B (IP-tala skráð) 25.9.2007 kl. 20:16
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.